Ég vann á Akureyri til ársins 1980 þegar ég fluttist suður til Reykjavíkur og hóf störf við útibú Landsbankans í Austurbæ. Þar vann ég til 1982 flutti þá aftur norður til Akureyrar og bjó þar til ársins 1995 þegar ég flutti til Noregs og starfaði hjá þremur mismunandi bönkum.
Fyrir norðan vann ég í deild sem sá um innheimtur og ábyrgðir. Það komu kröfur erlendis frá til fyrirtækja sem voru að flytja inn vörur. Þetta var allt mögulegt - innflutningur á bílum, matvælum og allt sem var til sölu. Á þessum árum var Ísland að þróast mikið, líkt og allar götur frá stríði, og innflutningur var mjög mikilvægur.
Það sem ég gerði á þessum tíma var að afgreiða slíkar kröfur og afgreiða sérstaklega ferðamannagjaldeyri - það var allt skammtað. Svo voru ábyrgðir sem við þurftum að útbúa, aðallega fyrir innflutninginn en líka aðeins fyrir útflutning. Þegar sambandsverksmiðjurnar voru fyrir norðan var útflutningur þar blómstrandi en þeir keyptu líka mikið inn.
Það sem var sérstakt á þessum árum var að gengið var reglulega fellt og það var enginn markaður með íslenska krónu. Bankarnir versluðu gjaldeyrinn beint af Seðlabankanum og það var gert ansi lengi.
Þegar ég byrjaði þurftu þeir sem voru að flytja inn vörur iðulega að fá gjaldfresti. Það þurfti að fletta upp í möppu tollnúmeri vörunnar og kanna hvort tollnúmerið þyrfti undanþágu fyrir gjaldfresti. Þá þurfti að sækja um undanþáguna til Seðlabankans og þá fylltum við út umsókn sem við sendum í pósti til Seðlabankans. Afgreiðsla slíkra beiðna tók oft fleiri daga eða vikur. Innleiðing faxtækja hafi því verið ákveðin bylting í þessu ferli!
Það var ekki fyrr en þegar ég sneri aftur í Landsbankann árið 1996 sem stofnuð var svokölluð Viðskiptastofa, sem er forveri þeirra markaðsviðskipta með gjaldeyri sem við þekkjum í dag. Þá byrjuðum við að hringja og bjóða gjaldeyri, spyrja hvort fólk vildi selja gjaldeyri og þá varð til virkari markaður. Við vorum fyrstir í þessu um miðjan júní 1996. Við vorum tveir sem vorum í gjaldeyrismiðlun fyrir viðskiptavini, einn sem sá um krónumarkaðinn, tveir á millibankamarkaði og einn í bakvinnslu. Hann hafði nóg að gera! Á þessu tíma sinntum við líka innlánum og peningamarkaðslánum þannig að þarna þróaðist vísir að gjaldeyrismarkaði á Íslandi.
Undanfarin ár hafa verið lífleg á gjaldeyrismarkaði. Umhverfið hefur breyst, oftar en einu sinni höfum við unnið undir gjaldeyrishöftum og ýmsum öðrum takmörkunum. Eftir að öllum höftum var aflétt hefur markaðurinn verið sterkur, sérstaklega undanfarin tvö ár.“