Ávarp bankastjóra

Árið 2023 var afar gott rekstrarár hjá bankanum en líka ár mikilla tímamóta. Við erum stolt af því að viðskiptavinir eru ánægðastir með bankaþjónustu Landsbankans og ætlum að halda áfram að einfalda þeim lífið og hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Landsbankinn skilaði traustri afkomu á árinu 2023. Bankinn er vel fjármagnaður, kostnaðarhlutfallið er með því lægsta sem gerist í bankaþjónustu í heiminum og bankinn hefur sterka arðgreiðslugetu. Góð afkoma var af öllum þáttum starfseminnar og arðsemi eiginfjár var 11,6% sem er umfram langtíma arðsemismarkmið bankans. Hærri ávöxtun á lausafé, viðsnúningur á hlutabréfamörkuðum, útlánaaukning og breytt samsetning efnahags eru meginskýringarnar á auknum hagnaði frá fyrra ári. Það er ánægjulegt að sjá að þrátt fyrir hátt vaxtastig á landinu helst vaxtamunur heimila stöðugur.

Traustur rekstur til margra ára og kröftug stefna sem snýst um að einfalda viðskiptavinum lífið hefur breytt bankanum. Við erum einstaklega stolt af því að fimmta árið í röð var Landsbankinn efstur á bankamarkaði í Íslensku ánægjuvoginni.

Við teljum árangurinn enga tilviljun því við vinnum markvisst að því að gera þjónustu bankans í senn framúrskarandi, einfalda og aðgengilega. Viðskiptavinum hélt áfram að fjölga og mælist markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði nú 40,5%, hærri en nokkru sinni fyrr.

Þjónusta um land allt og frábært Landsbankaapp

Mikil ánægja er með Landsbankaappið og aðrar stafrænar lausnir. Viðskiptavinir kunna líka vel að meta að geta fengið ráðgjöf og aðstoð hjá okkur í 35 útibúum og afgreiðslum um allt land, auk þess að hafa aðgang að einstaklega öflugu Þjónustuveri. Við höfum gert starfsfólki í útibúum um allt land kleift að veita ráðgjöf og þjónustu í gegnum síma, tölvupóst og á fjarfundum, óháð búsetu bæði starfsfólks og viðskiptavina. Með þessu styrkjum við starfsemina um allt land, jöfnum álag og aukum þjónustuna en sem dæmi má nefna að á árinu 2023 sáu útibú á landsbyggðinni um rúmlega 80% af allri ráðgjöf sem var veitt á fjarfundum og 70% af ráðgjöf sem var veitt í gegnum síma.

Landsbankinn hefur stutt vel við Grindvíkinga í þeirri óvissu sem ríkir vegna áframhaldandi jarðhræringa og eldgosahættu. Það sýndi sig hversu gott er að hafa traust net af frábærum ráðgjöfum þegar bankinn hafði samband við alla viðskiptavini sína í Grindavík sem voru með íbúðalán og aðstoðaði þá við að nýta sér úrræði um greiðsluskjól og niðurfellingu vaxta og verðbóta.

Sterk á fyrirtækjamarkaði

Bankinn er sterkur á fyrirtækjamarkaði og leiðandi á mörgum sviðum, m.a. sjávarútvegi og á byggingarmarkaði. Nú eru um 3.600 íbúðir í byggingu sem eru fjármagnaðar af bankanum en samkvæmt okkar mati samsvarar það um helmingi af öllum yfirstandandi byggingarframkvæmdum. Árið var mjög gott hjá fyrirtækjaráðgjöf bankans og færsluhirðing Landsbankans hefur fengið frábærar viðtökur síðan þjónustunni var hleypt af stokkunum í fyrra. Við munum áfram leggja áherslu á að auka þjónustuframboð bankans og breikka tekjustofna.

Leiðandi í að opna bankakerfið

Við höfum tekið forystu í að opna bankakerfið. Viðskiptavinir njóta tæknilegs forskots bankans meðal annars með því að í Landsbankaappinu er nú hægt að framkvæma aðgerðir sem eru hvergi í boði annars staðar. Í ársskýrslunni er fjallað ítarlega um þær fjölmörgu nýjungar sem hafa litið dagsins ljós á árinu og ferðalagið á bak við þessa miklu getu til breytinga og þróunar. Þróunin heldur áfram og á þessu ári bíðum við meðal annars spennt eftir því að geta boðið viðskiptavinum upp á að endurfjármagna húsnæðislán í appinu sem verður annað risaskref í bankaþjónustu.

Vel heppnuð skuldabréfaútgáfa

Á árinu var bankinn mjög virkur í fjármögnun eftir að hafa staðið af sér erfiðar aðstæður á erlendum mörkuðum á árinu 2022. Vel heppnuð skuldabréfaútgáfa bankans árið 2023 sýnir að bankinn nýtur mikils trausts á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum. Nýjasta græna skuldabréfaútgáfa bankans, þar sem eftirspurn var fimmföld, heppnaðist einstaklega vel og er nú hátt í 50% af erlendri fjármögnun bankans græn.

Sjálfbærni er stór þáttur í rekstri bankans og við vinnum að því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að takmarka hlýnun jarðar. Mikilvægasta leið bankans til að hafa jákvæð áhrif liggur í lánveitingum til fyrirtækja sem eru að ná árangri í sjálfbærni, sér í lagi í umhverfismálum. Ef fyrirtækin ná árangri, nær Landsbankinn og samfélagið allt árangri.

Við höfum sett okkur vísindaleg markmið um samdrátt í losun og nú í febrúar 2024 fengum við þau staðfest af Science Based Targets initiative (SBTi). Við erum fyrsti bankinn á Íslandi til að ná þessum áfanga.

Vaxtamunur heimila hefur lækkað

Óvissa í efnahagslífinu hefur síst minnkað á síðustu mánuðum. Öll finnum við fyrir áhrifum af þrálátri verðbólgu og háum vöxtum, sem einnig þyngja róður fyrirtækja í auknum mæli. Í því ljósi er ánægjulegt að sjá að auknar kröfur til fjármálafyrirtækja hafa ekki leitt til aukins kostnaðar við þjónustu Landsbankans til viðskiptavina. Þvert á móti hefur margra ára vinna við að einfalda og gera starfsemi bankans skilvirkari, skilað sér í því að á sama tíma og efnahagsreikningur bankans hefur nær tvöfaldast og viðskiptavinum fjölgað um tugi þúsunda, hefur starfsfólki fækkað um meira en þriðjung. Þessi stærðarhagkvæmni og áhersla á skilvirkan rekstur hefur meðal annars stuðlað að því að vaxtamunur heimila hefur lækkað, en það er munurinn á milli vaxta óbundinna sparireikninga og breytilegra húsnæðislánavaxta.

Mikil tímamót með flutningum

Á undanförnum árum höfum við markvisst unnið að því að flytja starfsemi bankans úr óþarflega stórum húsakosti yfir í hentugra og hagkvæmara húsnæði. Hagræðingin sem þessu fylgir er mikil. Frá árinu 2017 hefur heildarhúsakostur sem bankinn notar minnkað um hátt í 40%, úr rúmlega 40.000 í um 25.000 fermetra. 

Á árinu urðu mikil  tímamót í rekstri Landsbankans þegar við kvöddum Austurstræti 11 eftir um 100 ára samfellda sögu í húsinu. Um leið færðum við starfsemi úr ellefu öðrum húsum í Kvosinni og tveimur í Borgartúni og fluttum undir eitt þak í Reykjastræti 6.

Við það fækkaði fermetrum sem fóru undir starfsemina í miðbænum úr um 18.000 í 10.000, rekstrarkostnaður lækkaði varanlega og starfsaðstaðan tók stakkaskiptum til hins betra. Við vildum að hönnunin myndi ýta undir samskipti og samstarf og það hefur svo sannarlega gengið eftir. Við sem hér störfum finnum greinilega hversu mikill kraftur og geta til breytinga losnaði úr læðingi í kjölfar flutninganna og kannanir sem gerðar eru á líðan starfsfólks sýna mjög aukna ánægju með nýtt starfsumhverfi. Nýtt húsnæði er aðeins ein af fjölmörgum breytingum sem hafa verið gerðar á rekstri bankans á undanförnum árum sem gera honum kleift að halda úti frábærri þjónustu um allt land og vera mjög samkeppnishæfur í kjörum. Ekki síst ýta þessar breytingar undir aukna ánægju starfsfólks sem skilar sér í jákvæðu hugarfari. Með það sem veganesti eru okkur allar leiðir færar.

Vöxum með efnahagslífinu

Heilbrigð arðsemi ber vott um að bankinn sé vel rekinn og að langtímasjónarmið séu viðhöfð í rekstrinum. Jöfn og góð afkoma og árlegur útlánavöxtur stækkar efnahagsreikning bankans og hann vex með efnahagslífinu. Þannig getur bankinn veitt smáum jafnt sem stórum fyrirtækjum samkeppnishæf kjör og framúrskarandi þjónustu. Aukin stærðarhagkvæmni í rekstri skilar sér sömuleiðis í bættum kjörum og enn betri þjónustu til einstaklinga.

Ég er ánægð með forystu bankans í fjármálaþjónustu á Íslandi og hversu vel viðskiptavinir kunna að meta þjónustu okkar. Við vitum að hækkandi vaxtastig hefur ýmsa erfiðleika í för með sér og munum hér eftir sem hingað til standa með okkar viðskiptavinum.

Ég þakka starfsfólki bankans fyrir frábært ár. Kraftur og jákvætt hugarfar einkennir þennan frábæra hóp. Við erum vel studd af stjórn bankans sem veitir bæði aðhald og leiðsögn. Við erum staðráðin í að einfalda líf viðskiptavina okkar, skila góðum og traustum rekstri og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Landsbankinn er traustur banki fyrir farsæla framtíð og ætlar að vera áfram í fararbroddi í bankaþjónustu á Íslandi.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur