Við vorum þess vegna ákveðin í að láta viðskiptavini einnig finna fyrir kostum þess að bankinn er brautryðjandi á þessu sviði. Og það gerðum við með því að gera viðskiptavinum mögulegt að nota Landsbankaappið til að skoða bankareikninga í öðrum bönkum og nota appið til að millifæra af þessum reikningum. Þótt þú sért með reikninga í öðrum bönkum þarftu þess vegna bara Landsbankaappið. Við opnuðum fyrir þennan möguleika í júlí 2023 og þá má segja að opna bankakerfið hafi mætt og það mætti auðvitað fyrst í Landsbankann!
Við erum mjög ánægð með að hafa náð þessum áfanga og vonum einnig að þessi árangur verði öðrum hvatning til að nýta sér möguleikana. Möguleikarnir sem opna bankakerfið býður upp á eru margir. Ég sé til dæmis fyrir mér að fjártæknifyrirtæki gæti smíðað app fyrir stóra verslunarkeðju sem þú getir notað til að borga innkaupin beint út af reikningnum í bankanum, frekar en að nota kort. Flugfélag gæti líka nýtt sér þennan möguleika.
Þeir bankar sem hægt er að nálgast úr Landsbankaappinu eru Arion banki, Íslandsbanki og Kvika. Við hlökkum til að bjóða aðra banka og sparisjóði velkomna í appið þegar þeir eru til.
Með því að geta skoðað og millifært af reikningum í öðrum bönkum færðu betri yfirsýn yfir fjármálin, en það er eitt af áhersluatriðum okkar. Á árinu 2023 buðum við líka upp á þann möguleika að veita öðrum skoðunaraðgang og millifærsluheimild á reikninga. Þannig er til dæmis mjög einfalt fyrir sambúðarfólk að leyfa makanum að sjá stöðuna og millifæra af reikningum. Að mínu mati skiptir miklu máli að fólk geti haft sameiginlega sýn á fjármálin, það einfaldar lífið og gerir fólki auðveldara að gera áætlanir og hafa stjórn á útgjöldunum.
Innleiðing PSD2 hefur verið mjög umfangsmikið og dýrt verkefni en hefur líka í för með sér marga kosti fyrir bankann til framtíðar. Viðskiptavinir munu finna fyrir kostunum í betri þjónustu og rekstur bankans verður hagkvæmari.“