Stöðug framför og snjallar lausnir

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að nýta stafrænar þjónustuleiðir til að efla bankann og einfalda viðskiptavinum lífið. Undanfarin ár hefur þróun Landsbankaappsins verið ofarlega á baugi. Við viljum að viðskiptavinir okkar, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, geti með einföldum hætti sinnt öllum helstu bankaviðskiptum, hvar og hvenær sem þeim hentar.

Stelpa í síma

Frá og með árinu 2023 hafa orðið umskipti á appinu. Það býður ekki lengur einungis upp á hefðbundna bankaþjónustu, heldur tengir saman vinnu, yfirsýn og fjármál fólks á nýjan hátt. Þá er Landsbankaappið orðið helsta dreifileið bankans og aldrei hefur gengið betur að miðla þjónustu í gegnum appið.

Við leiðum opna bankakerfið

Á árinu 2023 opnuðum við fyrir þann möguleika að tengja bankareikninga í öllum íslenskum viðskiptabönkum inn í Landsbankaappið. Þannig geta viðskiptavinir okkar haft yfirsýn yfir öll sín fjármál í appinu, þ.e. sótt stöðu og færslur á greiðslureikningum sínum í öðrum bönkum, sem og millifært af greiðslureikningum í öðrum bönkum – allt í Landsbankaappinu.

Með því að bjóða fyrst og ein upp á tengingu við bankareikninga í öðrum bönkum, sterka sannvottun við innskráningu og greiðslur og sameiginlega sýn á fjármál með veitingu umboðs í appi, leiðir Landsbankaappið Ísland inn í opna bankakerfið.

Hluti af innleiðingu nýrra greiðsluþjónustulaga var að opna á tengingar í gegnum svokölluð vefskil. Nú geta aðrir bankar og fjártæknifyrirtæki tengst bankanum og, í gegnum sínar lausnir, boðið eigin viðskiptavinum upp á upplýsingar um bankareikninga, hreyfingaryfirlit og möguleikann á að framkvæma helstu greiðsluaðgerðir.

Fjölskyldusýn tengir fólk saman

Við höfum kynnt til leiks nýjungar í appinu sem gera fólki kleift að fá sameiginlega sýn á fjármál fjölskyldunnar. Þessi þjónusta er hvergi í boði nema í Landsbankaappinu.

Við bjuggum til virkni þar sem fólk getur veitt öðrum aðgang að bankareikningunum sínum, kortum, ógreiddum reikningum, verðbréfaeign og rafrænum skjölum. Einnig er hægt að veita öðrum umboð til að millifæra út af reikningum og það er einfalt að fella niður aðgangsheimildirnar.

Foreldrar og forráðafólk fær nú sjálfkrafa aðgang að upplýsingum barna sinna undir 18 ára aldri, óháð lögheimili foreldra.

Fjölskylda við stofuborð

Nýtt útlit og endurhönnun

Á árinu innleiddum við nýtt hönnunarkerfi við þróun appsins og notuðum kerfið til að færa næstum allar síður í appinu í nýtt útlit. Kerfið er safn eininga sem hönnuðir raða saman til að tryggja gott flæði. Íhlutasafn (e. UI kit) er safn forritaðra eininga sem endurspeglar einingarnar úr hönnunarkerfinu. Forritarar nota það til að smíða endanlegu lausnina.

Flestir ferlar voru betrumbættir í leiðinni þar sem við samræmdum allt viðmót og tryggðum samfellu í útliti og upplifun viðskiptavina.

Hönnunarkerfið gerir okkur kleift að hraða þróun nýrra lausna. Það styður við markmið okkar um að gefa hratt út nýjungar í smærri útgáfum. Það leiðir til skjótrar endurgjafar sem auðvelt er að bregðast hratt við.

Raunútgáfur á Landsbankaappinu til viðskiptavina voru 19 á árinu 2023.

Sterk sannvottun

„Á undanförnum tveimur árum hefur mikil vinna verið lögð í breytingar á netbanka og appi til að auka öryggi viðskiptavina í greiðslumiðlun. Breytingarnar  eru víðtækar og eru innleiddar í áföngum.

Innleiðingu er lokið fyrir einstaklinga en unnið er að sambærilegum breytingum fyrir lögaðila. Helstu breytingarnar eru að svokallaðri sterkri auðkenningu er bætt inn í öll helstu greiðsluferli í appi og netbanka, netgreiðslur með greiðslukorti og innskráningu í app og netbanka.

Stöðug aukning á snertilausum greiðslum

Velta kortanna á síðasta ári fór í fyrsta skipti yfir 500 milljarða sem er aukning um 61 milljarð frá árinu áður. Þar af voru um 100 milljarðar í erlendri veltu en hún jókst um 16 milljarða milli ára.

Árið 2023 fór fjöldi kortafærslna yfir 76 milljónir, sem er aukning um 5 milljónir frá árinu á undan.

Á mánuði
6.400.000
færslur
Á dag
200.000
færslur
Á sekúndu
2,4
færslur

Af þessum 76 milljónum færslna voru um 19,5 milljónir netfærslur eða 27%. Þegar notkun á snjalltækjum er skoðuð sést að um 57% af færslum á sölustað eru gerðar með síma eða úri, sem er mikil aukning frá árinu áður þegar sambærileg tala var um 40%. Það eru því sífellt fleiri sem skilja plastkortin eftir heima sem eykur öryggi í kortaverslun.

Öruggir innviðir

Tvær stórar uppfærslur á mikilvægum kerfum voru gerðar á árinu. CRM-kerfið sem bankinn nýtir til að halda utan um helstu viðskiptavinaupplýsingar fór í stóra uppfærslu og þar að auki var reksturinn færður yfir í skýið. Uppfærslan gefur okkur tækifæri til frekari einföldunar og samþættingar við aðrar lausnir og að reksturinn sé kominn í skýið tryggir að bankinn sé alltaf með nýjustu útgáfu kerfisins. Stór uppfærsla var einnig gerð á Murex-kerfinu, sem bankinn nýtir m.a. fyrir gjaldeyris- og afleiðuviðskipti.

Þinglýsing á sex sekúndum

Landsbankinn þinglýsti tryggingabréfi með rafrænum hætti þann 23. nóvember 2023, fyrstur allra á Íslandi. Það að geta rafrænt þinglýst tryggingabréfum er mikill sigur fyrir viðskiptavini Landsbankans en afgreiðslutími lánveitinga sem eru tryggðar með rafrænt þinglýstum tryggingabréfum styttist margfalt.

Þess má til gamans geta að rafræn þinglýsing fyrsta tryggingabréfsins tók um 6 sekúndur í þinglýsingu í stað daga eða vikna biðtíma.

Bílalán beint í gegn

Ný lausn fyrir bílalán vegna notaðra bíla var gefin út á árinu 2023. Viðskiptavinurinn er í framsætinu og sér sjálfur um að stilla upp bílaláninu eftir eigin þörfum, annað hvort í símanum eða tölvunni, eftir að bílasali hefur sent umsóknina frá sér. Viðskiptavinur getur valið lánsfjárhæð og lánstíma, skoðað greiðslubyrði og kostnað við lántöku ásamt því að undirrita þau skjöl sem þarf vegna lántökunnar. Ný lausn einfaldar jafnframt bílasölum að hefja fjármögnunarferli fyrir hönd viðskiptavina hjá Landsbankanum þar sem lánsumsóknin er send beint úr umsýslukerfi bílasalans. 

Húsakostur dregist saman um 40%

Á undanförnum árum höfum við markvisst unnið að því að flytja starfsemi bankans úr eldra húsnæði sem í mörgum tilfellum var óhentugt og óþarflega stórt, yfir í hentugri og hagkvæmari húsakost. Við höfum t.d. selt gömlu Landsbankahúsin á Akureyri, Ísafirði og Selfossi. Á árinu 2023 urðu mikil tímamót þegar við fluttum úr Austurstræti 11, ellefu nærliggjandi húsum í Kvosinni og tveimur í Borgartúni og undir eitt þak í Reykjastræti 6. Frá árinu 2017 hefur heildarhúsakostur sem bankinn notar minnkað um hátt í 40%, úr rúmlega 40.000 í um 25.000 fermetra.

Þjónustuver nýrra tíma

Við höfum á árinu tekið markviss skref í þá átt að auka gæði og skilvirkni í Þjónustuveri Landsbankans. Væntingar fólks til þjónustu hafa aukist og samhliða því að sjálfsafgreiðsluaðgerðum í appinu og netbankanum fjölgar hefur einföldum þjónustuviðvikum fækkað mjög en þeim flóknari fjölgað. Þar sem sjálfsafgreiðsla endar tekur mannshöndin við sem kallar á breytt skipulag og aðferðafræði.

Á árinu sameinuðum við starfshópa þjónustuvers einstaklinga, þjónustuvers fyrirtækja og notendaþjónustu undir nafninu Þjónustuver nýrra tíma. Markmiðið er að bæta þjónustuupplifun og að viðskiptavinir fái skjóta og örugga afgreiðslu. Starfsfólk Þjónustuvers hefur mikla reynslu af að veita fjármálaþjónustu, tækniþjónustu og gríðarlega vöruþekkingu.

Markmið Þjónustuvers er að leysa sem flest mál í fyrstu snertingu og til að styðja við það markmið innleiddum við einnig nýtt þjónustuverskerfi. Kerfið veitir starfsfólki heildarsýn yfir öll samskipti við viðskiptavini, þ.e. fyrirspurnir sem koma í gegnum símtöl, netspjall, tölvupóst eða samfélagsmiðla. Kerfið auðveldar aðgengi að gagnadrifnum upplýsingum þar sem það tengist við innri kerfi eins og CRM. Þannig styrkir það viðskiptasambandið með því að veita betri þjónustu á skilvirkan hátt ásamt því að lágmarka biðtíma.

Nútímalegra starfsumhverfi og skipulag sem hvetur til framþróunar og sveigjanleika er grundvöllur betra og skilvirkara vinnuskipulags.

Við teljum að með þessum breytingum höfum við styrkt samkeppnisstöðu bankans ennþá frekar og jákvætt hugarfar meðal starfsfólks gagnvart nýju kerfi og skipulagi tryggir nútímalegri starfshætti.

Reikningavöktun og tilkynningar

Mikil framþróun hefur orðið í sjálfvirkum tilkynningum (e. push notifications). Nú geta viðskiptavinir t.d. látið vakta alla bankareikningana sína, fengið tilkynningar þegar innborgun berst á reikning eða ef ráðstöfun verður neikvæð, vaktað sparnaðarmarkmið sín og óskað eftir tilkynningu um nýja, ógreidda reikninga og reikninga á eindaga.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur